Wednesday, September 25, 2013

PRESS - nordanatt.is

Umfjöllun birt á nordanatt.is þann 25.9.13 en slóðin er:

http://www.nordanatt.is/index.php/lifidh-og-tilveran-blog/3170-johanna-maria-og-troja


JÓHANNA MARÍA OG TROJA 

SKRIFAÐ ÞANN SEPTEMBER 25 2013

  

Jóhanna María Oppong hefur verið að vekja athygli að undanförnu vegna fatalínunnar Troja, en Fréttablaðið birti viðtal við Jóhönnu þann 12. september s.l. Þar segir hún frá hugmyndafræðinni að baki fatalínunni og hvað hefur haft áhrif á hönnunina.
Fatalínan var frumsýnd á unglistahátíðinni Eldur í Húnaþingi í júlí s.l. og fór Jóhanna þar yfir leiðina sem hún hefur fetað að fatalínunni.

Jóhanna María á rætur sínar að rekja til Ásbjarnarstaða á Vatnsnesi en er nú búsett í Reykjavík ásamt manni sínum og tveimur börnum. Hún er kjólklæðaskeri og viðskiptafræðingur að mennt og starfar í banka. Hennar menntun hefur haft áhrif á fatalínuna en hún segist hanna fyrir konur í viðskiptaheiminum. „Ég geng út frá því að ef ég get sjálf hugsað mér að nota flíkina í vinnunni þá eigi hún heima í línunni“, sagði Jóhanna í viðtali við Fréttablaðið.

Leiðin að fatalínunni Troja hófst í september 2011 og sagði hún í ræðu sinni á Eldi í Húnaþingi að innblásturinn hafi m.a. komið frá gardínu sem Stína á Þorgrímsstöðum gaf henni. Jóhanna prufaði sig áfram með gardínuna til að athuga hvort það væri ekki hægt að búa til flík úr henni. Þar hófst „blúnduævintýrið“ mikla og segir hún línuna bera þess merki, rauði þráðurinn í gegnum línuna sé blúnda og blúnduborðar. Innblásturinn kom þó frá fleiri stöðum og segir Jóhanna að línan sé undir miklum áhrifum frá sjötta áratugnum og Audrey Hepburn.

Hugmyndafræðin að baki línunni nefnist „slow fashion“, en hún snýst í grófum dráttum um að hlúa að og vernda umhverfið með framleiðsluháttum sem og tryggja góðan aðbúnað starfsfólks og mannsæmandi laun. Þannig er áherslan á gæði í fyrirrúmi enda styður það við umhverfisvæn sjónarmið sem snýr að því að lágmarka úrgang framtíðarinnar. Í takt við þetta reynir Jóhanna að framleiða sinn fatnað og þess vegna eru margar flíkur breytanlegar til þess að sem mest not fáist úr hverri flík. Með því er hægt að nota fatnaðinn sem oftast og því þarf ekki að kaupa jafn mikið af öðrum fatnaði. Þetta stuðlar einmitt að því að lágmarka úrgang og sóun í framtíðinni. „Ég byggi á svörtum grunnkjól sem hægt er að nota mismunandi toppa við. Toppinn má svo vera í yfir bol við pils eða buxur. Topparnir eru í nokkrum litum og sumir með áfastri slæðu í hálsmálið sem má þá binda á mismunandi vegu. Svo er hægt að fá suma toppana með slóða sem hægt er að taka af ef vill en þá áttu í raun kápu og topp í einni og sömu flíkinni.“, sagði Jóhanna í viðtali við Fréttablaðið. Þá reynir Jóhanna að vinna línuna á eins umhverfisvænan hátt og hægt er.

Í júlí á þessu ári fór allt á fullt með myndatökum sunnan heiða og svo var auglýsingamyndband tekið upp í Kirkjuhvamminum. Ýmsir aðilar hafa komið að gerð auglýsingamyndbandsins. Sölvi Mars Eðvaldsson leikstýrði og sá um myndatöku, Ágústa H. Birgisdóttir sá um stíliseringu, Sigrún Eva Þórisdóttir um hárgreiðslu og Ásdís Sverrisdóttir um förðun. Leikarar voru Margrét G. og Þorbjörg I. Ásbjarnardætur og Guðjón Þ. Loftsson, bróðir Jóhönnu. Í ræðu sinni á Eldi í Húnaþingi sagði Jóhanna að líklegt væri að tónlistin í myndbandinu verði sérsamin af heimamanni. Vinnsla á myndbandinu er í gangi og verður það birt á fyrri hluta næsta árs.

Norðanátt tók Jóhönnu Maríu örlitlu tali og forvitnaðist um hvernig henni liði með það að fatalínan hefur litið dagsins ljós og hvernig viðtökurnar hafa verið.

Ég verð að segja að léttirinn var mikill þegar ég var búin að frumsýna fatalínuna enda mikil vinna og langur tími að baki. Þegar ég hófst handa upphaflega þá grunaði mig ekki hversu tímafrekt þetta væri. Þetta er álíka og með ísjaka sem flýtur á hafi úti, 10% er sýnilegt og 90% ekki. Aðaltíminn fer ekki í að þróa línuna sjálfa heldur allt í kringum hana eins og vefsíðuna, vörumerkið og annað. Frumsýning línunnar var bara fyrsta skrefið af mörgum. Sum skrefin sé ég fyrir mér á næstu mánuðum og árum en önnur koma pottþétt sem eru ekki fyrirsjáanleg.

Ég verð að segja að mér finnst mikill ábyrgðarhlutur að koma fram með fatalínu. Ég leiddi hugann einstaka sinnum að því hvað myndi gerast ef engum líkaði nú fatnaðurinn sem ég geri. Ég sé nú eftir opnun að slíkar áhyggjur eru óþarfar enda hef ég fengið mikið hrós í hnappagatið vegna fatalínunnar og alls í kringum hana. Viðtökurnar hafa verið vonum framar og ég horfi til framtíðar með tilhlökkun í huga. 

Stefnirðu með fatalínuna lengra, eins og út í lönd?
Já, hugurinn leitar út fyrir landsteinana. Ég er með nokkur lönd í huga. Bretland er til dæmis eitt af þeim. Það er hins vegar þannig að kynning á vöru erlendis tekur mikinn tíma og krefst mikils fjármagns. Hugurinn fer mun hraðar en fjármagn og tími leyfir. Lykilorðið hér er hellingur af þolinmæði, slatti af þrautseygju og ákveðni og dash af bjartsýni. Ég er byrjuð að huga að fyrstu skrefum út fyrir Ísland enda þótt ég muni líklega ekki leggja í ´ann af fullum þunga fyrr en eftir rúmlega eitt ár.

Verður hægt að versla vörurnar á fleiri stöðum en í netversluninni www.troja.is?
Fyrst um sinn verður aðeins hægt að versla í gegnum vefverslunina www.troja.is og tíminn mun leiða það í ljós hvar fatnaðurinn verður fáanlegur utan vefsíðu Troja. 

Vefur Troja er á veffanginu www.troja.is og Fésbókarsíðan er www.facebook.com/Troja.is. 

No comments:

Post a Comment